Hugtakið "við" rúmar okkur öll. Hvort sem við erum einstaklingar, hópar eða þjóðir. En það er tilhneiging til aðgreiningar: Við og hin. Við reisum múra milli okkar í stað þess að rífa þá.
Ég hugsa stundum um hvort bækur og sjónvarpsefni hafi innrætt mér fordóma í bernsku minni. Þær voru óteljandi kúrekamyndirnar sem sýndu þjóðarmorð á indíánum og stríðsmyndirnar þar sem Japanir og Þjóðverjar voru útmálaðir sem hálfgerðar ófreskjur og stráfelldir af góðu gæjunum í hinum ósigrandi bandaríska her. Leikir okkar strákanna voru í þessum anda, byssuleikir eða tindátaleikir. Við áttum heri af tindátum, (eða réttara sagt plastdátum því þeir voru úr plasti) sem við röðuðum upp í fylkingar í hrauninu. Svo voru það bókmenntirnar. Fimm-bækurnar eftir Enid Blyton voru fyrstu bækurnar sem ég las eftir að ég var orðinn læs.
Úr Wikipedia:
"Á síðari árum hafa ýmsir gagnrýnt bækur Enid Blyton fyrir viðhorf sem koma fram í þeim, bæði hvað varðar kynþætti, stéttaskiptingu og kynjahlutverk. Þetta kemur fram í orðalagi, staðalímyndum og mörgu öðru. Brotamennirnir eru oft dökkir yfirlitum og útlendingslegir. Helstu ovinir Dodda voru upprunalega svertingjadúkkur en í nýlegum sjónvarpsþáttum koma önnur leikföng í stað þeirra. Stéttaskiptingin miðast líka við breskt samfélag á fyrri hluta 20. aldar. Söguhetjur Enid Blyton eru allar af miðstétt, fólk af lægri stéttum er yfirleitt óheflað og fáfrótt. Á seinni árum hafa útgefendur bóka Enid Blyton stundum gert breytingar á textanum til að draga úr þessum viðhorfum."
Það er hvorki ætlun mín að deila á á Enid Blyton né kryfja bernskuna. En bernskuminningar mínar kallast á við hugleiðingar um áleitin samfélagsleg málefni og þá meina ég tilhneiginguna til að jaðarsetja framandi hópa og einstaklinga. Útgangspunkturinn í hugleiðingum mínum er að við erum öll á sama báti.
Það er tenging á milli umræddra bóka eftir E.B. og myndraðar á sýningunni. Tengingin er fólgin í bókartitlunum á einfaldan hátt: Orðinu Fimm er skipt út fyrir orðið Við. Dæmi: Fimm á fjöllum uppi verður: Við á fjöllum uppi. Fimm á flótta verður Við á flótta. Og svo framvegis. Þar sem skýringum mínum sleppir er það áhorfandans að túlka og tengja að eigin vitund.
Kristbergur Ó. Pétursson