Kristbergur Pétursson á átján myndir á grafíksýningunni, flestar koparætingar. „Ætlarðu að halda þig við grafíkina, Kristbergur?" „Ég fór í Myndlistarskólann til að læra grafík en nú hef ég hug á að bæta við mig og læra meira í stað þess að binda mig við grafík, sem er takmörkuð grein innan myndlistar þótt vissulega sé hún verðugt viðfangsefni. Ég fór sem sé í skólann til að læra þessa tækni en mér finnst hún ekki veita nægilega mikla möguleika til þess að hægt sé að binda sig við hana. Mér finnst ég hafa lært mikið á þessum fjórum árum í skólanum — ég var sautján ára þegar ég hóf nám þar. Bæði lærir maður mikið af kennurunum og því sem skólinn hefur upp á að bjóða en ekki síður af því að lifa og hrærast í því andrúmslofti sem ríkir innan veggja skólans og umgengni við aðra nemendur." „Hvernig vinnurðu fyrir þér?" „Eins og er vinn ég við húsamálun, en mig langar mest af öllu til að stunda myndlistina og læra meira. Frá því ég man eftir mér hef ég bókstaflega lifað fyrir myndlistina, — ég var byrjaður að mála olíumyndir þegar ég var ellefu ára. Ég undi mér ekki reglulega vel í hinum almenna skóla, var varla til friðs fyrr en ég var kominn í myndlistarnámið. Og áhuginn hefur svo sannarlega ekki minnkað við að vera við nám í Myndlistarskólanum þessi fjögur ár."
„Eg hef verið áhugasamur um myndlist frá barnæsku. Ég velti því lengi fyrir mér hvaða deild ég ætti að velja en ákvað að taka þetta nám, grafíkina, vegna þess að inn i það spilaði mjög margbreytileg, tæknileg atriði sem mig langaði til að læra með fullri virðingu fyrir öðrum deildum skólans. Flest öll mótifin eru frá Hafnarfirði. Það er sjávarsíðan og unnið úr myndefninu á huglægan hátt. Ég er tuttuguogeinsárs. Ég hef raunverulega aldrei haft áhuga á öðru en myndlist. Draumurinn er að lifa á myndlistinni en það er náttúrlega fjarlægur draumur. Markmiðið er að geta einbeitt sér að myndlistinni án þess að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Ég var að hugsa um að fara til útlanda í framhaldsnám en er hættur við í bili. Allar nánari pælingar um það verða að bíða betri tíma. Ég er á þeirri skoðun að það sé ekki endilega nauðsynlegt að fara utan í skóla. Það er nóg að ferðast. Aðalatriðið er aö vera vakandi fyrir öllu sem er að gerast, öllum hreyfingum. Verkin verða aldrei skýrð fullkomlega, hvorki munnlega né skriflega. Hver og einn verður að komast í tengsl við þau á sinn persónulega hátt."
Sýning á grafík eftir ungt listafólk hangir þessa dagana á vesturgangi Kjarvalsstaða. Það eru fimm nýútskrifaðir grafíkerar úr Myndlista- og handíðaskóla íslands, sem hér eru á ferð. Þetta fólk kemur hér fram í fyrsta sinn, ef ég veit rétt, og á það sameiginlegt að vera nemendur Richards Valtingojers, sem reyndar er með sýningu sjálfur hinum megin á göngunum á Kjarvalsstöðum. Það er því skemmtilegt að bera saman verk kennara og nemenda, en samt er sá samanburður hvergi sanngjarn, þar sem lærimeistarinn er margreyndur í fagi sínu, en unga fólkið að hefja göngu sína á listabrautinni. Það er hressilegur og ferskur blær yfir þessari sýningu og þar má finna ýmsar tegundir af grafík, en ég held, að sáldþrykkið hafi þar samt yfirhöndina, þótt ýmsar aðrar aðferðir séu þessum hópi kærar. Má þar nefna ætingar, blueprint, mezzotint og þurrnál. Ljósmyndaæting er einnig á dagskrá. Yfirleitt er þetta unga fólk leitandi og nokkuð óráðið í myndlist sinni, og er ekkert við þvi að segja. Ég held þó að megi segja um hópinn í heild, að hann sé geðþekkur og hugmyndaríkur. Hæfileikar eru auðsjáanlegir, og það má vel binda nokkrar vonir við þetta fólk. Auðvitað eru þessi verk nokkuð skólaleg, og svipur sumra kennara er finnanlegur. Einnig svífur Warhol nokkuð yfir vötnunum. Þetta eru ekki stórar syndir og að mörgu leyti ágætar þegar á allt er litið. Anna Henriksdóttir á þarna viðkvæmar og fínlegar teikningar af börnum. Elín Edda Árnadóttir hefur nútímalega tilfinningu fyrir formi og uppsetningu og skemmtilega titla. Kristbergur Pétursson heldur sig mest við ætingu og er nokkuð klassískur í myndgerð sinni. Lára Gunnarsdóttir hefur að mínum dómi náð mestum árangri í myndum sínum, „Morguntónleikar". Tryggvi Árnason virðist dugmikill tæknimaður og er hugfanginn af sumu því, er hæst ber á himni nútíma listar, eins og stendur. Silkiþrykk og blueprint eru hans uppáhaldsaðferðir, ef dæma má af því, sem hann sýnir að sinni. Alls eru 63 verk á þessari sýningu, og skiptast þau nokkuð ójafnt milli listafólksins. Þegar á heildina er litið, getur þessi hópur vel við unað sína frumraun, og eins og nafn þessarar sýningar ber með sér, er hér ný grafík á ferð. Það hefur verið sérlega fjörugt í þessari listgrein að undanförnu og hver sýningin eftir aðra. Möppur gefnar út og mikið skrifað um grafík. Þessi sýning er ágætur viðbætir, sem skemmtilegt er að kynnast. Það eru fjórar sýningar á Kjarvalsstöðum um þessar mundir, svo húsnæðið virðist jafnvel vera að springa undan álaginu, enda sýningartíðni í Reykjavík sjálfsagt heimsmet, miðað við stærð og mannfjölda borgarinnar.
Valtýr Pétursson