GARÐURINN & TÍMINN er yfirskrift myndlistarsýningar sem við systkinin, ég og Oddrún Pétursdóttir, opnum fimmtudaginn 17 ágúst kl. 18.00 í LitlaGallerý, Strandgötu 19 í Hafnarfirði.
Tilefni sýningarinnar er hundrað ára afmæli Hellisgerðis, skrúðgarðs Hafnfirðinga, Við viljum jafnframt minnas föðurömmu okkar, Guðmundínu Oddrúnar Oddsdóttur, en hún bjó þar í litlu húsi sem í dag er þekkt sem Litla Álfabúðin.
Við áttum vísan samastað á heimili ömmu í Hellisgerði og þar var tíðum setið við stofugluggann með blöð og liti og allskyns barnaföndur meðan amma bakaði pönnukökur, raulaði vísur og sagði sögur úr bernsku sinni. Garðurinn var ævintýraheimur sem við kynntumst á öllum árstíðum. Í blómskrúði sumars og gestafjölda, í fegurð haustlitanna meðan skammdegið færðist yfir og undir stjörnubjörtum himni í vetrarþögn uns birti aftur og voraði með nýju lífi.